Einungis 12 fyrirtæki uppfylla það 1,5% verðbil sem sett er sem skilyrði fyrir að vera í úrvalsvísitölunni. Þetta skilyrði er þó ekki útilokandi og þegar síðast var valið í vísitöluna voru nokkur félög sem uppfylltu það ekki. Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að með verðbili er átt við hlutfallslegan mun á hagstæðasta kaup- og sölutilboði og er það um leið helsti mælikvarðinn á seljanleika hlutabréfa. Bankinn segir hátt verðbil vera hluta af stærra máli, þ.e.a.s. því hve fá félög bera íslenska markaðinn uppi. Í ljósi þess hve mikið ber á milli félaganna í Úrvalsvísitölunni, hvort sem horft er til vægis í vísitölunni, veltu með bréfin eða verðbils hefur bankinn velt því upp hvort tilefni sé til að fækka þeim, til dæmis úr 15 í 10. Vísitölu eins og Úrvalsvísitölunni er enda ætlað að mæla þróun hlutabréfamarkaðarins með sem fæstum félögum.