Á seinni hluta ársins 2018 voru 1.500 nýjar íbúðir settar á söluskrá á höfuðborgarsvæðinu en á sama tíma seldust um 440 nýjar íbúðir. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans upp úr tölum Íbúðalánasjóðs og Þjóðskrár.

Jafnframt kemur fram að í janúar hafi 300 nýjar íbúðir komið til sölu, en á fyrstu tveimur mánuðum ársins hafi nýjar íbúðir verið seldar, þó sú tala kunni að hækka. „Séu tölur ÍLS og Þjóðskrár skoðaðar í samhengi verður ekki betur séð en að óseldar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu skipti hundruðum,“ segir í greiningunni.

„Töluverð umræða hefur verið um sölutregðu á nýbyggðum íbúðum á miðsvæðum Reykjavíkur en miðað við þessar tölur er þessi vandi væntanlega almennur. Lengi hafa verið uppi kenningar um að hér væri í miklum mæli verið að byggja tegundir íbúða sem lítil eftirspurn væri eftir. Tölurnar hér að framan benda til þess að eitthvað sé til í þessum kenningum.“

Frá árinu 2017 hefur meðalstærð nýrra íbúða minnkað úr 116 fermetrum niður í um 103 fermetra á síðasta ári, sem enn virðist þó vera stærri íbúðir en eftirspurn er eftir á markaði.

Á milli áranna 2017 og 2018 hækkaði verð nýrra seldra íbúða um 5,9%, sem árið 2017 voru að jafnaði um 15% dýrari en eldri íbúðir og 17% dýrari árið 2018. Eldri íbúðirnar hækkuðu á sama tíma um 4,2%. Í ár virðist þó eldri íbúðirnar ekkert hafa hækkað miðað við sama tíma í fyrra en þær nýju hækkað um 6 til 7%.