Verðbólga hér á landi er nú að nálgast það að vera sú mesta sem mælist á meðal ríkja innan evrópska efnahagssvæðisins, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs var verðbólgan hér á landi 4,8% í maí síðastliðnum og af öllum aðildarríkjum EES var hún einungis hærri í Lettlandi eða 7,1%. Þar í landi hefur verðbólgan reyndar aukist umtalsvert að undanförnu. Ísland hefur á síðustu mánuðum færst hratt upp listann yfir verðbólguríki en meirihluta síðastliðins árs var verðbólga hér á landi lág í alþjóðlegum samanburði," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin telur líkur vera á því að innan fárra mánaða muni Ísland tróna á toppi lista yfir þau lönd innan EES sem búa við mestu verðbólgu.

?Spá okkar er að verðbólgan fari vaxandi á næstu mánuðum. Ástæðan er fyrst og fremst hröð gengislækkun krónunnar að undanförnu ásamt mikilli þenslu í íslenskum þjóðarbúskap. Líklega verður staða hagkerfisins á toppi þessa lista ekki langvarandi þar sem verðbólgan mun hjaðna hratt á næsta ári þegar áhrifin af gengislækkun krónunnar fjara út og dregur úr þenslu í hagkerfinu. Reiknum við með því að verðbólga muni undir lok næsta árs fara aftur niður að því sem er að meðaltali í ríkjum EES," segir greiningardeildin.