Af 38 brottförum sem áttu að vera á dagskrá á Keflavíkurflugvelli á morgun, er einungis eitt flug enn á dagskrá, það er til Heathrow flugvallar við London, vegna þess ástands sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur Covid 19 sjúkdómnum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær , eru einungis tvö flug á dagskrá á Keflavíkurflugvelli í dag, það er annars vegar til Lundúnaborgar í Bretlandi og hins vegar til Bostonborgar í Bandaríkjunum. Bæði þau flug koma til landsins í fyrramálið til baka en einungis ein ferð verður frá landinu þá. Lagt er af stað frá Keflavíkurflugvelli klukkan 7:40 í fyrramálið.

Utanríkisráðuneytið tísti um málið á samfélagsmiðlinum Twitter, en eins og fram kom í umföllun Viðskiptablaðsins fyrr í vikunni hefur ráðuneytið hvatt Íslendinga á leiðinni heim til að hafa með sér þar til gerð skjal sem árétti heimild þeirra til að fljúga.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra áréttaði sérstaklega í tilkynningu að Ísland sé áfram opið öllum Íslendingum og ríkisborgurum EES ríkjanna.