Árið 2017 var greint frá því að GAMMA hefði sett á laggirnar 5 milljarða króna fasteignasjóð í London sem bar nafnið Anglia en honum var ætlað að fjárfesta í bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Var sjóðurinn annar tveggja sjóða í stýringu GAMMA sem færður var töluvert niður í vikunni en gengi Anglia fór úr 105 í 55.

Í viðtali við Viðskiptablaðið það ár lét Gísli Hauksson, annar stofnenda GAMMA og þá verandi stjórnarformaður og forstjóri félagsins í London, hafa það eftir sér að nú væri frábær tímapunktur fyrir Íslendinga að fjárfesta erlendis og að hugmyndin væri að nýta sterka krónu og veikt pund til þess að komast inn á fasteignamarkaðinn í London á góðu verði auk þess sem sjóðurinn myndi fjárfesta í nokkuð mörgum fasteignaverkefnum í London, í samstarfi við öfluga breska samstarfsaðila.

Á þeim tíma sem verið var að kynna sjóðinn voru nokkur verkefni kynnt fyrir fjárfestum en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur aðeins eitt þeirra komist úr startholunum. Í tilkynningu frá GAMMA kemur fram að við mat á stöðu Anglia hafi komið í ljós að verkstjórn eins samstarfsaðila sjóðsins hafi verið verulega ábótavant auk þess kostnaður hafi verið vanmetinn. Sjóðurinn hefur því þurft að færa niður fjárfestingar sem gerðar voru í samstarfi við umræddan aðila auk kostnaðar vegna undirbúnings við byggingu fjölbýlishúss sem hafnað var af skipulagsyfirvöldum.