Einungis þeir sem greiða félagsgjöld til félaga innan Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, munu geta greitt atkvæði í prófkjörinu fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Þetta var ákveðið á fundi Varðar í Valhöll í gærkvöld.

Óttarr Guðlaugsson, formaður Varðar, segir þessa hugmynd ekki nýja af nálinni. „Þetta hefur alltaf verið í skipulagsreglum . En það hefur alltaf verið borin upp tillaga um að þessi liður yrði gerður óvirkur,“ segir hann. Hingað til hafi þessi liður verið gerður óvirkur en það hafi ekki verið samþykkt á fundinum í gær.

Þetta fyrirkomulag mun þó ekki hafa áhrif á tvö stór félög innan Varðar, Heimdall og Hvöt, þar sem þau innheimta ekki nein félagsgjöld af félögum sínum. Það mun því mest snerta karlmenn sem eru yfir 35 ára að aldri.

Óttar segir mestu skipta að prófkjörið fari fram þann sextánda nóvember.  „Við erum að vinna að útfærslunni og það er kannski megin verkefnið núna,“ segir hann.