*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 26. mars 2018 09:00

Einungis í nafni Viðreisnar í Reykjavík

Varaformaður Viðreisnar hefur ekki efasemdir um samstarf við Bjarta framtíð, en flokkurinn hyggur víðast á samstarf til vinstri.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður og varaformaður stjórnmálaflokksins Viðreisnar staðfestir í Morgunblaðinu að flokkurinn muni einungis fara fram undir eigin nafni í Reykjavík fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Annars staðar hefur flokkurinn farið í samstarf með flokkum til vinstri, líkt og nýlegum Garðabæjarlista þar sem allir flokkar nema Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur fara saman.

„Við ákváðum strax í upphafi þegar farið var að ræða mögulegt framboð í sveitarstjórnum að við myndum ganga opin til samstarfs ef það yrði í boði, að því gefnu að áherslumál yrðu svipuð,“ segir Þorsteinn sem segir flokkinn ekki hafa efasemdir um samstarf við Bjarta framtíð þrátt fyrir allt sem á undan hafi gengið.

„Það er alveg ljóst að Björt framtíð fékk mikið högg í landsmálunum sér í lagi en flokkurinn hefur haft nokkuð sterka stöðu og verið þátttakandi í meirihlutasamstarfi bæði í Kópavogi og Hafnarfirði, þannig að okkur finnst þetta mjög fínt. Málefnaáherslur flokkanna í báðum sveitarfélögunum eru mjög svipaðar og við teljum að það sé mikill styrkur fyrir báða flokka að þessu samstarfi“

Flokkurinn mun jafnframt vinna með Neslistanum á Seltjarnarnesi líkt og áðurnefndum Garðabæjarlista í Garðabæ auk þess að styðja framboð L-listans á Akureyri og væntir Þorsteinn þess að Viðreisnarfólk fái sæti á þeim lista.