Colruyt verslunarkeðjan rekur m.a. 170 verslanir í Belgíu. Colruyt hefur kynnt íslenskan fisk, sem er til sölu í verslunum fyrirtækisins, sem afrakstur ábyrgrar fiskveiðistefnu og að veiðiaðferðir, meðhöndlun og rekjanleiki vörunnar standist ítrustu kröfur. Þetta kemur fram í Stiklum, nýjasta vefriti utanríkisráðuneytisins.

Colruyt er þekkt vörumerki í Evrópu en á vegum fyrirtækisins er stundaður margs konar rekstur, allt frá sjóflutningum til átöppunar gæðavína og sölu
bifreiða og velti það ríflega 350 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári. Kjarni starfseminnar er rekstur matvöruverslunarkeðju sem hefur á boðstólum hágæðamatvöru sem er seld í stórum umbúðum á lágu verði til heimila jafnt sem veitingastaða. Einungis er seldur frystur fiskur í verslunum Colruyt en þrátt fyrir að þær hafi að jafnaði lægsta vöruverð í Belgíu hefur fyrirtækið hlotið margar viðurkenningar fyrir gæði matvæla á
boðstólum.

Mikil umræða um öryggi matvæla

"Umræða um öryggi matvæla er ofarlega á baugi í Evrópu, eins og sést meðal annars á stofnun matvælaöryggisstofnunar Evrópu, og Colruyt ákvað að taka frumkvæði og gera ákaflega strangar kröfur til gæða þeirra sjávarafurða sem fyrirtækið selur?, segir Kjartan Jóhannsson, sendiherra
Íslands í Belgíu. ?Þessar kröfur samanstanda af ýmsum þáttum sem ná til veiðiaðferða, aldurs vöru, að veiðarnar séu sjálfbærar, rekjanleika
vörunnar, allt frá veiðum til markaðssetningar o.fl. Fyrirtækið leitaði til viðurkennds og óháðs eftirlitsaðila sem gengur úr skugga um að varan
standist ávallt gæðakröfur og felst slíkt eftirlit m.a. í heimsóknum í þau fyrirtæki sem vinna vöruna, þar með talin vinnslufyrirtæki á Íslandi. Fullnægi
varan þessum skilyrðum ber hún gæðamerki sem þekkt er og viðurkennt um alla Belgíu. Hingað til hefur einungis íslenskur fiskur uppfyllt þessar
kröfur.?