Skráðir þátttakendur á stórsýningunni Verk og vit 2006, sem verður haldin í Íþrótta- og sýningahöllinni í Laugardal dagana 16. - 19. mars, eru orðnir um eitt hundrað talsins. Í frétt á heimasíðu Samtaka iðnaðarins kemur fram að um fjölbreyttan hóp sýnenda er að ræða, bæði innlenda og erlenda. Aðeins um 15% sýningarrýmis er enn óráðstafað en gólfflötur hinnar nýju Laugardalshallar er um 5.000 fermetrar.

Mörg helstu fyrirtæki landsins og opinberar stofnanir sem tengjast byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum taka þátt í sýningunni og ljóst er að fjölbreytni verður mikil.

Í tengslum við sýninguna verða haldnar ráðstefnur og málþing þar sem m.a. verður fjallað um ólík rekstrarform og eignarhald fasteigna og skipulagsmál. Einnig verða haldnar ýmsar fagkynningar.

Framkvæmd sýningarinnar er í höndum AP sýninga, sem er í eigu AP almannatengsla ehf. Samstarfsaðilar við sýninguna eru iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Ístak hf. og Landsbanki Íslands hf.