Fjallamenn, betur þekktir undir heitinu Mountaineers of Iceland hafa ráðið Ásgeir Örn Valgerðarson, sem vakið hefur athygli fyrir innlegg sín á samfélagsmiðla undir heitinu Gerðu meir Ásgeir, eða Do more Ásgeir, sem markaðsstjóra fyrirtækisins.

„Ég hef í raun alltaf verið í sölu- og markaðsmálum á einhvern hátt, alveg frá því að ég byrjaði að vinna í fataverslunum með skóla sem unglingur,“ segir Ágeir Örn en hans hlutverk verður að stýra vörumerki fyrirtækisins og frekari markaðssetningu á því.

„Mountaineers eru eitt elsta, sennilega fyrsta ævintýraferðafyrirtækið á landinu, en þau hefja starfsemi sína árið 1996, og hafa síðan byggt upp sterka kjarnastarfsemi. Fyrirtækið er nú að einblína í auknum mæli á að finna óhefðbundnar leiðir í ferðum fyrir viðskiptavini, það er, ekki bara að herja á mest nýttu ferðastaðina heldur finna styrkleika í hálendinu og víðar.“

Áður en Ásgeir hellti sér á ný inn í markaðsmálin hafði hann starfað í um fjögur ár hjá Advania við verkefnastjórnun en þangað lá leið hans eftir að hafa rekið eigið fyrirtæki.

„Ég var í söludeildinni hjá Mjólkursamsölunni, síðan var ég einkaþjálfari hjá World Class í um tvö ár og þaðan fór ég í Símann. Þegar ég hætti þar stofna ég Gurilla, sem gekk út á markaðssetningu á samfélagsmiðlum, en þetta var áður en myndbönd og samfélagsmiðlar verða jafnstórir í markaðssetningu og er í dag,“ segir Ásgeir sem ákvað svo að hætta rekstri fyrirtækisins.

„Einveran var farin að segja til sín eftir þrjú ár í eigin rekstri, ég var farinn að sakna mikið þessa hefðbundna fyrirtækjaumhverfis, mötuneytanna og hafa ágætisfélagsskap yfir daginn.“ Ásgeir er í sambúð með Ágústu Natalíu Gísladóttur en hann á þrjú börn, eina þrettán ára stelpu, átta ára strák og eina sex mánaða unga dóttur.

„Sú litla er að taka allan minn tíma og fókus utan vinnu þessa dagana, en þess utan er ég mikill áhugamaður um ferðalög sem er ástæðan fyrir að ég ákvað að hella mér út í ferðaþjónustuna,“ segir Ásgeir sem reynir alla jafna að vera með regluleg ferðainnslög á síðum sínum á Instagram og YouTube sem vakið hafa athygli.

„Ég reyni að eyða eins miklum tíma og ég get á flandri um Ísland, en innslög mín eru hugsuð sem ráðgjöf eða heimildir fyrir ferðamenn sem hyggjast koma til Íslands.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .