Hjúkrunarheimilið Eir þarf að leita nauðasamninga til að leysa úr fjárhagsvanda stofnunarinnar eftir ekki fékkst stuðningur fyrir þeirri tillögu sem stjórn Eirar hafði lagt fram til að leysa úr fjárhagsvanda heimilisins. Fram kemur í tilkynningu frá stjórnar Eirar að 96% íbúðarétthafa hafi samþykkt samningana en 4% hafnað þeim eða ekki tekið afstöðu til þeirra.

Fréttavefur Morgunblaðsins, mbl.is , segir tillöguna sem felld var hafa falið í sér að gefið verði út skuldabréf til að standa við skuldbindingar gagnvart þeim sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðum Eirar. Um var að ræða verðtryggð skuldabréf til 25 ára með 3,5% vöxtum. Samkvæmt núverandi samningum ber Eir að endurgreiða íbúðarétt með einni greiðslu sex mánuðum eftir að íbúð er skilað.

Í tilkynningu sem stjórnar hjúkrunarheimilisins hefur sent frá sér segir að í formlegum nauðasamningum þurfi samþykki 60% íbúðarétthafa og 60% af kröfufjárhæð til að ná samningi í gegn. Í ferlinu þurfa m.a. íbúðarétthafar að lýsa kröfum sínum með formlegum hætti og greiða atkvæði þegar nauðasamningurinn verður borinn upp til atkvæða. Lögmenn Eirar munu aðstoða íbúðarréttarhafana.

Rekstur hjúkrunarheimilisins hefur verið í járnum um nokkurt skeið. Það skuldar Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum sex milljarða króna og íbúðarétthöfum tvo milljarða til viðbótar. Ofan á allt saman er eiginfjárstaða Eirar neikvæð. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri, var stjórnarformaður hjúkrunarheimilisins þegar vandinn varð að fjölmiðlamáli í fyrrahaust. Vandinn kom í ljós þegar Sigurður Rúnar Sigurjónsson, ritari fjárlaganefndar Alþingis til 20 ára, tók við stöðu framkvæmdastjóra hjúkrunarheimilisins í byrjun síðasta árs. Eftir það rataði mál Eirar inn á borð fjárlaganefndar . Vilhjálmur sagði af sér í kjölfarið.