Samfélagið þarf á hverjum og einum að halda - ekki síst nú á þessum erfiðu tímum. Þeir sem hafa misst vinnuna mega því ekki missa móðinn.

Þetta segja þær Sigríður Snævarr sendiherra og María Björk Óskarsdóttir viðskiptafræðingur sem hafa frá því í byrjun nóvember þróað Nýttu kraftinn - hugmyndafræði til stuðnings og hvatningar fyrir einstaklinga sem misst hafa vinnuna að ósekju í öllum hremmingunum að undanförnu.

Meginmarkmiðið er að koma einstaklingunum sem fyrst út á vinnumarkaðinn aftur.

Nýttu kraftinn gengur út á það að hvetja atvinnulausa einstaklinga til að nýta tíma sinn og kraft á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og ,,ganga til hvers dags sem vinnudagur væri," segja þær.

Hugmyndafræðin gengur út á það að einstaklingar haldi virkni sinni og sjálfsmynd og geri sig þannig samkeppnishæfari í atvinnuleitinni. Þær hafa í því skyni mótað ferli fyrir atvinnulausa einstaklinga með þessa hugmyndafræði að leiðarljósi og eru að ýta því úr vör af fullum krafti þessa dagana.

Þær hafa rætt samstarf við ýmsa aðila og eru Vinnumálastofnun og VR þegar komin í samstarf við þær. Þá hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins, segja þær, verið einstaklega hjálplegir.

Nánar er rætt við þær Sigríði og Maríu Björk í Viðskiptablaðinu sem kom út í kvöld.