Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið ráðinn bæjarstjóri á Akureyri. Hann er ráðinn til næstu fjögurra ára og mun hefja störf þann 15. ágúst næstkomandi.

Alls sóttu 64 um starfið en 11 drógu umsóknina sína til baka þegar ljóst var að nöfn umsækjenda yrðu birt. Í tilkynningu frá bæjarstjórn Akureyrar segir að Capacent, sem hafði umsjón með ráðningaferlinu, hafi valið 20 einstaklinga úr hópi umsækjenda og loks valið 3 úr þeim hópi. Að auki naut L-listinn aðstoðar 5 manna óháðar ráðgjafanefndar í ráðningaferlinu og stóð valið hjá þeim á milli sömu þriggja umsækjenda og Capacent mælti með.

„Eiríkur Björn Björgvinsson fæddist í Reykjavík 6. september 1966. Hann varð stúdent frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla árið 1987, lauk íþróttakennaraprófi á grunn- og framhaldsskólastigi frá Íþróttakennaraskóla Íslands árið 1990 og diplómu frá Íþróttaháskólanum í Köln árið 1994 auk diplómaprófs í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2000,“ segir í tilkynningunni.

„Eiríkur Björn var æskulýðs- og íþróttafulltrúi Egilsstaðabæjar 1994-1996, íþrótta- og tómstundafulltrúi Akureyrarbæjar 1996-2002 og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði 2002-2010. Eiginkona hans er Alma Jóhanna Árnadóttir, fædd 29. janúar 1969 á Húsavík. Hún er grafískur hönnuður frá Myndlistaskólanum á Akureyri. Þau eiga þrjá syni: Árna Björn, 13 ára; Birni Eiðar, 2 ára og Hákon Bjarnar, 6 mánaða.“