Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri hefur sent Jóhönnu Sigurðardóttur bréf þar sem hann lýsir furðu sinni á vinnubrögðum og yfirlýsingum í sambandi við stjórnskipulagsbreytingar á Seðlabankanum.

„Í stað þess að sinna brýnum verkefnum í peningamálum og gjaldeyrismálum hefur miklum tíma verið eytt í óþarfa síðustu vikur að mínum dómi,“ segir í bréfi Eiríks.

Þá segir Eiríkur yfirlýsingu forsætisráðherra um að skipulagsbreyting sú sem felst í Seðlabankafrumvarpinu sé undirstaða þess sem verið sé að glíma við í efnahagsmálum, furðulega í ljósi þeirra tafa sem orðið hafa á undanförnu m.a. vegna bréfaskipta Jóhönnu og bankastjóra Seðlabankans og þess að viðskiptanefnd Alþingis hafi veitt Seðlabankanum óeðlilega skamman frest til umsagnar um frumvarpið.

Þannig segir Eiríkur að vinnan við umsögnina hafi orðið að fá forgang umfram brýn úrlausnarefni sem að Seðlabankanum snúa.

„Sömuleiðis hefur það valdið töfum að lykilmönnum hefur verið vikið til hliðar,“ segir Eiríkur jafnframt.

„Sem dæmi má nefna að Ingimundur Friðriksson gegndi hér mikilvægu hlutverki og var m.a. skipaður af fyrrverandi forætisráðherra í svonefnda samræmingarnefnd sem vinnur að endurreisn fjármálakerfisins.“

Þá segir Eiríkur að það sé mikilvægt að tóm gefist til að sinna brýnum verkefnum „í stað þess að dreifa athyglinni eins og gert hefur verið með óvönduðum vinnubrögðum varðandi skipulag Seðlabankans og óviðeigandi yfirlýsingum í tengsl við það,“ eins og segir í bréfi Eiríks.