„Við sjáum bæði kosti og galla við þessar aðgerðir. Teljum við það mikinn kost að tekið verði upp samstarf milli Íbúðalánasjóðs og banka og það bætir virkni peningamálastefnunnar" segir Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri.

Eiríkur segir þá hjá Seðlabanka Íslands setja spurningamerki við þá breytingu á háttum Íbúðalánasjóðs að það eigi að miða lán við söluverð fasteignar en ekki brunabótamat, og samt að halda lánshlutfallinu í 80%.

Því með þessu „er Íbúðalánasjóður að taka áhættu og lánþeginn einnig því hann tekur hátt lán á meðan íbúðarverð er átt en þegar hann ætlar að selja þá getur fasteignaverð hafa lækkað."

Inntur eftir viðbrögðum við ummælum Hreiðars Más Sigurðssonar , forstjóra Kaupþings frá því fyrr í dag þar sem hann gagnrýnir aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sagðist Eiríkur ekki hafa séð þau og vildi því ekkert um þau segja.