Eiríkur Sigurðsson, kenndur við verslunina Víði, og Katla Guðrún Jónasdóttir, fyrrverandi eiginkona breska fjárfestisins Kevin Stanfords, hafa bæði stefnt ríkinu vegna skattamála. Eiríkur var í sumar dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 163 milljóna króna. Hann vantaldi tekjur sínar um rúmar 800 milljónir króna og var hann ákærður fyrir að hafa stungið 80 milljónum króna undan skatti. Embætti sérstaks saksóknara ákærði svo Kötlu Guðrúnu í september fyrir að hafa vantalið tekjur sínar um tæpar 117 milljónir króna og hafa stungið rúmum 42 milljónum króna undan skatti.

Mál þeirra Eiríks og Kötlu Guðrúnar verða tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á miðvikudag í næstu viku.

Málin eru nokkuð ólík en embætti sérstaks saksóknara ákærði Eirík fyrir að hafa vantalið tekjur sínar af afleiðusamningum sem hann gerði árið 2007. Endurskoðandi Eiríks var sömuleiðis ákærður á sínum tíma. Hann hlaut jafnframt 18 mánaða dóm en enga fjársekt vegna undanskotsins.

Kötlu Guðrúnu er gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2007 og 2008 vegna tekjuáranna 2006 og 2008 með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram greiðslu upp á 40 milljónir króna árið 2007 og fasteign að Ingólfsstræti upp á 77 milljónir króna árið eftir. Í ákærunni segir að þetta hafi átt að flokkast sem gjafir.

Hvorki Katla Guðrún né Guðni Ásþór Haraldsson, lögmaður Eiríks, vildu tjá sig um málið þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir viðbrögðum þeirra. Ekki náðist í Eirík Sigurðsson.