*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 11. október 2017 15:15

Eiríkur og Helga vilja selja Víði

Eigendur matvöruverslunarkeðjunnar Víðis, sem reka fjórar verslanir, vilja selja en þau sneru á síðasta ári tapi í hagnað.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eiríkur Sigurðarson og eiginkona hans Helga Gísladóttir, eigendur matvöruverslunarkeðjunnar Víðis, sem reka fjórar verslanir á höfuðborgarsvæðinu vilja selja sig út úr rekstrinum. Þau hjónin opnuðu fyrstu verslun fyrirtækisins í Skeifunni árið 2011, en reka nú verslanir við Hringbraut í Vesturbæ, á Garðartorgi í Garðabæ auk verslunar í Borgartúni.

Eiríkur stofnaði á sínum tíma verslunarkeðjuna 10-11 en seldi hana síðar til Haga. Verslunarkeðjan skilaði í fyrra um 49 milljón króna hagnaði en árið á undan var tæplega 13 milljón króna tap á rekstrinum að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Heildarvelta Víðis í fyrra var 2.270 milljónir króna í fyrra og dróst lítillega saman frá fyrra ári. Afkoma félagsins fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, nam 112 milljónum árið 2016 en hún var 16 milljónir árið 2015.

Heildareignirnar námu 680 milljónum króna í árslok 2016 en eigið fé félagsins var aðeins um 70 milljónir, svo eiginfjárhlutfallið er um 10%. Heildarskuldirnar eru rúmlega 600 milljónir, þar af er um 200 milljóna bankaskuld.