Hvíta húsið hefur ráðið til sín Eirík Má Guðleifsson viðskiptastjóra og Hrafn Jónsson texta- og hugmyndasmið.

Eiríkur er með M.A. gráðu í stjórnmálafræði frá University of Essex og MSc í Alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík. Eiríkur býr að 10 ára reynslu í auglýsingageiranum og starfaði síðast hjá alþjóðlegu auglýsingastofunni Factory Design Labs þar sem hann bar meðal annars ábyrgð á HEAD Wintersports og HEAD Tennis.

Eiríkur er nýfluttur heim frá Sviss þar sem hann eyddi ómældum tíma í að fullkomna eigin skíðahæfileika, að því er segir í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu.

Hrafn lærði leikstjórn og handritsgerð í kvikmyndaskólanum í Prag og starfaði áður í markaðsdeildum QuizUp og WOW air. Hrafn hefur einnig vakið athygli fyrir pistlaskrif í Kjarnann síðustu ár. Sambýliskona Hrafns er Brynhildur Bolladóttir upplýsingafulltrúi Rauða krossins. Saman eiga þau tvær chili plöntur og nágrannakött sem þau hleypa oft inn á kvöldin.