Eiríkur Jónsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hefur stefnt íslenska ríkinu og krafist miskabóta vegna skipunar í  embætti landsréttardómara. Stefnan var send ríkislögmanni í gær. RÚV greinir frá.

Eiríkur var einn þeirra fimmtán sem dómnefnd lagði til að skipaður yrði í Landsrétt. Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra skipaði hins vegar fjóra dómara sem ekki voru meðal fimmtán hæfustu að mati nefndarinnar og var Eiríkur einn hinna fjögurra sem skipt var út. Með kröfu Eiríks hafa nú allir mennirnir krafist bóta. Umræddir menn, auk Eiríks, eru lögmennirnir Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannesson og héraðsdómarinn Jón Höskuldsson.

Ástráður og Jóhannes Rúnar stefndu ríkinu fyrr á árinu og var ríkið sýknað af kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu. Þeim voru hins vegar dæmdar 700 þúsund krónur í bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar. Jón stefndi síðan ríkinu og krafðist tugmilljóna í skaða- og miskabætur út starfsævi sína, en dómarar eru æviráðnir. Taldi hann tjónið nema mismunum launa, lífeyrisréttinda og annarra launatengdra réttinda dómara við Landsrétt annars vegar og héraðsdómara hins vegar.

Samkvæmt frétt RÚV setur Eiríkur ekki fram neina fjárhæð í kröfunni sem hann gerir. Ljóst er að launamunur hans sem háskólaprófessors og landsréttardómara er mun meiri en hjá Jóni. Geri Eiríkur ámóta kröfu og Jón myndi hún hlaupa á hundruðum milljóna króna, en samkvæmt RÚV verður Eiríkur af hátt í einni milljón króna á mánuði með því að verða ekki landsréttardómari.