Á framhaldsaðalfundi Samherja hf., sem haldinn var í dag 7. júní 2005, mættu fulltrúar fyrir 93,26% hlutafjár. Eftirtaldir voru kosnir í stjórn Samherja á fundinum: Eiríkur S. Jóhannsson, Óskar Magnússon, Jón Sigurðsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Kristján Vilhelmsson. Finnbogi Jónsson gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn en hann hefur verið starfandi stjórnarformaður Samherja frá 1. júní árið 2000, fyrstu þrjú árin í fullu starfi en síðustu tvö árin í hlutastarfi samhliða starfi sem framkvæmdastjóri SR-Mjöls hf. Eiríkur tekur við stjórnarformennsku af honum.

Til vara í stjórn voru kosnir: Aðalsteinn Helgason og Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Á fundinum var samþykkt að halda hluthafafund í september nk. þar sem lögð verður fram tillaga um að fækkað verði í stjórn félagsins úr 5 í 3 og áfram verði 2 varamenn. Þóknun til stjórnarmanna var samþykkt kr. 80.000.- á mánuði fyrir starfsárið 2005-2006.

Á fundinum var samþykkt tillaga með vísan til 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995, að heimila félagsstjórn á næstu 18 mánuðum að kaupa bréf í Samherja hf. að nafnvirði allt að kr. 166.000.000,- . Kaupverð bréfanna má verða allt að 10% yfir meðal söluverði, skráðu hjá Kauphöll Íslands á síðasta tveggja vikna tímabili áður en kaupin eru gerð. Í þessu skyni er félagsstjórn heimilt að ráðstafa allt að kr. 1.660.000.000,-.

Stjórn félagsins kom saman í kjölfar aðalfundar og skipti með sér verkum þannig að Eiríkur S. Jóhannsson er stjórnarformaður eins og áður sagði, Óskar Magnússon varaformaður og Jón Sigurðsson er ritari.