Þýski bankinn Commerzbank gaf í dag út heldur dökka afkomuspá fyrir árið 2009 en að sögn bankans er talið að eitruð veð í eigu bankans nemi um 50 milljörðum evra sem draga muni verulega úr hagnaði bankans á árinu.

Í skýrslu bankans kemur fram að Dresdner Bank, sem Commerzbank keypti í byrjun janúar, hefði átt tæplega 40 milljarða evra safn af eitruðum veðum en í byrjun árs átti Commerzbank veðsafn að verðmæti 15,5 milljarða evra en bankanum hefur lítillega tekist að losa sig við eignir úr því safni.

Þá gerir bankinn ráð fyrir að þurfa allt að þrjú ár, eða úr árið 2011 til að losa sig við veðsafnið og mun það hafa töluverð áhrif á hagnað bankans þangað til.

Loks kemur fram að endurfjármögnunarþörf bankans mun á þessu ári nema um 20 milljörðum evrar.