*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 1. desember 2019 15:03

Eitrað fyrir uppljóstrara Samherjamáls?

Jóhannes segir mafíuna vinna með hagsmunaaðilum á Íslandi í Al-Jazeera. „Arfsögnin um íslenska sakleysið er dauð“.

Ritstjórn
Al-Jazeera fréttastöðin er með aðsetur í einræðispersaflóaríkinu Quatar.

Uppljóstrarinn í Samherjamálinu í Namibíu, Jóhannes Stefánsson, segir að stuttu eftir að hann hætti störfum fyrir Samherja, hafi hann fundið fyrir alvarlegum eitrunaráhrifum að því er Al-Jazeera segir frá í ítarlegri umfjöllun sinni um málið og hlerunaraðgerð þeirra á fulltrúa stjórnvalda í Namibíu.

Fréttastofan var í samstarfi við bæði RÚV og Stundina um rannsókn á Samherjamálinu og skjölunum sem Jóhannes lét WikiLeaks í té, en ákvað að birta ekki fréttir sínar um málið fyrr en í dag, hálfri viku eftir að þing- og forsetakosningar voru í landinu.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma birtist umfjöllun Kveiks daginn fyrir sérstakar utankjörfundarkosningar en seinni hlutinn kom tveim vikum síðar, á þriðjudaginn, daginn fyrir kosningarnar á miðvikudaginn.

Aö sögn Jóhannesar byrjaði hann að finna fyrir alvarlegum veikindum, þar sem hann hristist og skalf og hrundi niður í desember 2016, skömmu eftir a hann hætti störfum hjá Samherja. Segir í fréttinni að suður afríska mafían sé í samstarfi við bæði hagsmunaaðila og stjórnmálaöfl á Íslandi.

Mafían fékk yfirlýsingu um neyslu með hótunum

Þegar hér var komið sögu var Jóhannes fluttur til Höfðaborgar í Suður Afríku, þar sem hann sinnti viðræðum við Allie Baderoen, Suður Afríkumann sem hafði áhuga á að vinna með Samherja í sjávarútvegi landsins. Þær leiddu á endanum ekki til neins, en Al-Jazeera segir þær að lokum sýna mikla tengingu milli mafíunnar í Suður Afríku og viðskiptalífsins.

Jóhannes segist ekki hafa fengið neinar skýringar á veikindunum hjá suður afrískum læknum en læknir á Íslandi sagði honum síðar að einkennin líktust eitrunaráhrifum.

Samhliða birtust ásakanir í vottuðum yfirlýsingum af hálfu öryggisvarðar Jóhannesar um að hann væri alkahólisti, fíkniefnaneytandi og skuldaði rúmlega hálfa milljón til tveggja hórmangara í Höfðaborg.

Jóhannes hafnar þessum yfirlýsingum og eftir rannsókn Al Jazeera segir öryggisvörðurinn nú að honum og fjölskyldu hans hafi verið hótað af mafíu Suður Afríku ef hann myndi ekki skrifa undir yfirlýsinguna.

Jafnframt var vottorð um að hann hefði farið í fíkniefnameðferð skömmu áður en eitrunaráhrifin komu fram sagt falsað, til að mynda finnst heimilisfang meðferðarstofnunarinnar ekki.

Pírati segir Ísland ekki lengur saklaust

Í lok fréttarinnar er svo farið yfir afleiðingar uppljóstrana, handtökur og yfirvofandi rannsóknir en loks bent á hvernig atburðirnir hafi verið þjóðinni áfall. „Ein af fáum Evrópulöndum án sögu nýlendustefnu eða hernaðarbrölts, Ísland hefur löngum verið stolt af ætluðu „sakleysi“ sínu.“

Í lokaorðunum er svo vitnað í Halldóru Mogensen, þingmann Pírata flokksins: „Arfsögnin um íslenska sakleysið er dauð“.