„Dómur Hæstaréttar í Al-Thani málinu er allrar athygli verður. Þrátt fyrir að hinni efnislegu niðurstöðu verði ekki breytt, er nauðsynlegt að fjalla um einstakar forsendur niðurstöðu Hæstaréttar. Í þessum örpistli er aðeins ráðrúm til að beina sjónum að einum anga málsins. Varðar hann hlerun símtala sakborninga við verjendur.“

Á þessum orðum hefst pistill Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, lögmanns hjá Lex lögmannsstofu, sem hún ritar í Markaðinn á Fréttablaðinu. Þar byrjar hún á því að fara yfir ákvæði laga um samskipti verjanda og skjólstæðings. Bendir hún þannig á að samkvæmt ákvæðum sakamálalaga sé verjanda heimilt að ræða einslega við skjólstæðing sinn, auk þess sem kveðið sé á um að ef upptökur hafi að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda skuli eyða þeim þegar í stað.

Niðurstaðan vekur ugg

„Í Al-Thani málinu lá fyrir að tekin voru upp samtöl tveggja sakborninga við verjendur og að símtölunum var ekki eytt þegar í stað. Í niðurstöðu Hæstaréttar eru mótbárur sakborninga vegna þessa að engu hafðar,“ segir Heiðrún Lind. Sú niðurstaða hafi byggt á því að gögnin hafi ekki verið nýtt til sönnunar auk þess sem Hæstiréttur fengi ekki séð hvernig lögregla gæti almennt hagað aðgerðum við hlustun síma sakbornings á annan hátt.

„Niðurstaða þessi vekur ugg. Ekki er hægt að tryggja grundvallarrétt sakaðs manns til trúnaðarsamtals við verjanda ef það kemur í hlut rannsakanda að kanna hvort samtöl séu við verjanda og hvort þau njóti trúnaðar. Aukinheldur er alþekkt erlendis að framkvæmd er hagað öðruvísi,“ segir Heiðrún Lind og bendir á Mannréttindadómstóll Evrópu hafi dæmt á annan veg í áþekkum tilvikum. Vísar hún til tveggja mála því til stuðnings.

Brotið gegn Mannréttindasáttmála

Heiðrún Lind segir að ef skilja megi niðurstöðu Hæstaréttar á þann veg að sakamálalög heimili ekki aðra framkvæmd en þá sem viðhöfð var í Al-Thani málinu verði löggjafinn að bæta úr án tafar.

„Tryggi lögin ekki þessi grundvallarréttindi sakbornings, hefur íslenska ríkið brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir hún að lokum.

Lesa má pistil Heiðrúnar Lindar í heild sinni hér .