Vefverslunin Heimkaup byrjaði í gær á því að dreifa bjór, léttvíni og öðru áfengi í heimsendingu. Viðskiptavinir verslunarinnar geta nú pantað áfengi og fengið sent heim samdægurs. Pálmi Jónsson, forstjóri Heimkaupa, segir fyrirtækið þannig mæta óskum þeirra viðskiptavina sem vilji fá áfengi sent heim eins og aðrar vörur.

„Við dreifum og þjónustum Íslendinga alveg frá nautakjöti og grænmeti yfir í raftæki, fatnað og jafnvel nikótínpúða. Nú hafa vínið og bjórinn bæst við.“

Það er danska fyrirtækið Heimkaup ApS sem selur áfengið en Heimkaup, dótturfélag Wedo, dreifir vörunni. Fyrst um sinn verður hægt að kaupa og fá sent áfengi frá innlendum birgjum. Þá þarf viðskiptavinur að samþykkja söluna með rafrænum skilríkjum og aðeins aðilar sem geta sýnt fram á löglegan aldur með skilríkjum fá vöruna afhenta.

Nú þegar er komið fordæmi fyrir netverslun á áfengi hérlendis og hafa nokkrir söluaðilar sprottið upp á undanförnum misserum. Einna helst má nefna franska fyrirtækið Santewines SAS, sem er í eigu Arnars Sigurðssonar, en netverslunin var opnuð hér á landi fyrir rúmu ári. Jafnframt hefur Nýja vínbúðin, sem Sverrir Einar Eiríksson athafnamaður opnaði í júlí í fyrra, vakið mikla athygli.

Pálmi segir að Heimkaup aðgreini sig frá öðrum dreifingaraðilum áfengis á Íslandi. Heimkaup séu í raun stórvörumarkaður en hinar netverslanirnar sem selja áfengi séu sérverslanir.

„Við erum að bjóða upp á heildarpakkann. Þú getur keypt matinn, áfengið, raftækin, fatnað og fengið allt saman heim til þín í einu lagi. Það er í raun engin netsíða hérlendis sem hefur jafnmikið úrval af mat og við og getur veitt þá þjónustu sem við bjóðum upp á. Ef einhver verslun á Íslandi kemst nálægt okkur þá væri það helst Costco,“ segir Pálmi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið en í blaðinu er einnig fjallað um:

  • Ddea er nýtt íslenskt fatamerki sem Edda Gunnlaugsdóttir stofnaði, en hún hannar flíkurnar sjálf.
  • Raunvaxtamunur á verðtryggðum skuldabréfum Bandaríkjanna og Íslands er hverfandi.
  • Farið er yfir miklar hækkanir fastra vaxta eins og annarra það sem af er ári, sem tveir bankanna hafa ekki alltaf tilkynnt.
  • Rætt við Pál Edwald, nýjan verkefnastjóra hjá Reir Verk
  • Fjallað er um skort á áætlunarflugi til Vestmannaeyja.
  • Samþjöppun lykillinn í sjávarútvegi, Viðtal við Birgi Brynjólfsson hjá Antarctica Advisors.
  • Huginn & Muninn verða á sínum stað.
  • Týr fjallar dularfullt háttarlag Rússa í Dumbshafi
  • Óðinn skrifar um nútíma vinstrimenn og Rússland

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði