Beinum störfum á Keflavíkurflugvelli mun fjölga um 1.300 á þessu ári og 1.100 á því næsta. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Isavia, sem var kynnt í vikunni. Reiknað er með því að árið 2018 verði Keflavíkurflugvöllur stærsti vinnustaður landsins með 7.488 starfsmenn. Störfin dreifast á þau fyrirtæki sem hafa starfsemi á flugvellinum. Um 40% starfanna tengjast íslenskum flugfélögum beint. Þess má geta að árið 2014 voru 3.615 störf á Keflavíkurflugvelli.

Búist er við því að frá árinu 2018 til 2040 munu beinum störfum fjölga um 415 að meðaltali á ári, sem þýðir að árið 2013 verða störfin tæplega 12.200 og árið 2040 um 16.400. Spáin byggir á reiknireglu Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI) um fjölgun beinna starfa sem verða til á flugvöllum miðað við ákveðnar forsendur.

Gjörbreytt landslag

Fjölgun starfa á Keflavíkurflugvelli hefur gjörbreytt þróun atvinnumála á Reykjanesi. Á seinni hluta ársins 2008 fór atvinnuleysi í Reykjanesbæ úr 3% upp í 17% á mjög skömmum tíma. Þróunin var mun verri en almennt gerðist á landinu, þar sem atvinnuleysi fór úr 1% í 9%.

„Atvinnuleysið var því nær tvöfalt meira í Reykjanesbæ en það sem almennt gerðist á þessum tíma," segir  í skýrslu Isavia. „Útlitið í atvinnumálum Reykjanesbæjar var því afar dökkt en til viðbótar við alvarlegar afleiðingar efnahagshrunsins fækkaði störfum með brotthvarfi varnarliðsins. Þá náðist ekki að hefja framkvæmdir í Helguvík eins og vonir stóðu til sem hefðu unnið gegn neikvæðri þróun í atvinnumálum.

Frá árinu 2008 hefur atvinnuleysi minnkað hratt og í byrjun árs 2015 var atvinnuleysi í Reykjanesbæ komið niður í 3% sem er það sama og það var áður en það fór í hæstu hæðir. Stærsti áhrifaþátturinn í minnkandi atvinnuleysi er fjölgun starfa í tengslum við mikla fjölgun ferðamanna og aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli."

Eitt álver á ári

Í skýrslu Isavia eru settar fram nokkrar sviðsmyndir um fjölgun starfa á flugvellinum. Sú svartsýnasta gerir ráð fyrir að fram til ársins 2040 muni störfum fjölga að meðaltali um 381 á ári. Jafngildir það „einu litlu álveri á hverju einasta ári á svæðinu, hvað varðar ný störf. Það þarf því að huga að því hvernig svæðið, og landið allt, er undir það búið að takast á við þessa þörf."

Eins og staðan er í dag hefur meirihluti þeirra sem stafa við Keflavíkurflugvöll búsetu á Reykjanesi. Samfara fjölgun starfa er ljóst að það mun breytast. Í skýrslunni segir að í ljósi þess að nú sé lítið atvinnuleysi, bæði á Reykjanesi og landinu öllu, sé ljóst að sækja verði vinnuafl út fyrir landsteinana í stóran hluta þeirra nýju starfa sem muni skapast á næstu árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .