Actavis plc, móðurfélag Actavis á Íslandi, birti afkomu sína fyrir síðasta ár í Kauphöllinni í New York í morgun. Í tilkynningu frá Actavis á Íslandi segir að þetta sé besta afkoma í sögu félagsins en hápunktur síðasta árs voru kaup félagsins á írska lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott sem markaði breytta stefnu Actavis – frá því að vera sérhæft samheitalyfjafyrirtæki í alhliða lyfjafyrirtæki með breiða vörulínu samheitalyfja, sérlyfja og líftæknilyfja. Gangi kaupin á Forest Laboratories, sem tilkynnt voru í vikunni, í gegn, munu þau styrkja stöðu Actavis enn frekar sem leiðandi alhliða lyfjafyrirtæki á alþjóðavettvangi og tryggja áframhaldandi metnaðarfullan vöxt og velgengni félagsins.

Fjórði ársfjórðungur 2013
Tekjur jukust um 59% og námu 2,78 milljörðum bandaríkjadala á fjórða ársfjórðungi, samanborið við 1,75 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi 2012. Hagnaður á hlut (diluted earnings per share) hækkaði í 3,17 dali á fjórða ársfjórðungi 2013, samanborið við 1,59 dali á sama tímabili í fyrra, ef ekki er tekið tillit til óvenjulegra liða (non GAAP basis). Tap á hlut á fjórða ársfjórðungi 2013 voru 0,86 dalir samanborið við hagnað upp á 0,21 dali á hlut (diluted earnings per share) á sama tíma í fyrra.

Hagnaður fyrir fjármagsliði, skatta og afskriftir (adjusted EBITDA) hækkaði um 108% í 817,1 milljónir dala á fjórða ársfjórðungi 2013, samanborið við 393,0 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Handbært fé frá rekstri á fjórða ársfjórðungi 2013 var 651,7 milljónir dala.

Afkoma ársins 2013
Tekjur fyrir árið 2013 jukust um 47% í 8,7 milljarða dala, samanborið við 5,9 milljarða dala á árinu 2012. Hagnaður á hlut (diluted earnings per share) jókst um 58% í 9,50 dali, samanborið við 6,0 dali fyrir árið 2012, ef ekki er tekið tillit til óvenjulegra liða (non GAAP basis). Tap á hlut á árinu 2013 var 5,27 dalir samanborið við 0,75 dala hagnað á hlut (diluted earnings per share) fyrir árið 2012. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (adjusted EBITDA) jókst um 61% árið 2013 í 2,2 milljarða dala, samanborið við 1,4 milljarða fyrir árið 2012. Handbært fé frá rekstri fyrir árið 2013 var 1,2 milljarðar dala.