*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 4. október 2019 08:20

Eitt besta rekstrarárið í sögu VÍS

Skýr sýn og breytingar á fjármagnsskipan hafa skilað jákvæðum árangri í bókum Vátryggingafélags Íslands.

Ritstjórn
Helgi Bjarnason, forstjóri Vís.
Eyþór Árnason

„Árið 2018 var eitt besta rekstrarár í sögu félagsins. Það var gott með tilliti til trygginga, þrátt fyrir tvö stór brunatjón. Afkoman á fjármagnshlutanum var einnig góð í krefjandi umhverfi. Síðasta ár höfum við mótað okkur skýra sýn varðandi fjármagnsskipan, að auka arðsemi eigin fjár og það hefur skilað sér. Þetta einkenndi árið 2018,“ segir Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS.

„Stór brunatjón hafa verið ótrúlega tíð undanfarin ár. Nú hafa verið þrír stórir brunar á um einu ári sem er undantekning miðað við það sem vant er,“ segir Helgi. Vísar hann þar til stórtjóns sem varð í Miðhrauni í fyrra, þegar húsnæði Geymslna fuðraði upp, brunans í Perlunni og að endingu brunans í Fornubúðum í Hafnarfirði, í húsnæði Fiskmarkaðs Suðurnesja í júlí á þessu ári, þar sem altjón varð. Fyrrnefndu brunarnir tveir töldu um 2,6% af samsettu hlutfalli félagsins á síðasta ári. Bætur greiddar úr eignatryggingum voru 4,3 milljarðar í fyrra en það var aukning um rúmlega 1,5 milljarða milli ára.

„Undanfarin ár höfum við leitað leiða til að þróa þjónustu okkar áfram til að mæta þörfum viðskiptavina. Þar höfum við haft skýra sýn á stafrænni vegferð. Það er mjög ánægjulegt að sjá árangur af þeirri vinnu og sjá að viðskiptavinir taka vel í þær breytingar sem hafa átt sér stað. Það sem af er ári hefur til að mynda verið 60% aukning frá síðasta ári í innskráningum viðskiptavina á Mitt VÍS og rúmlega þriðjungur tjónatilkynninga er nú rafrænn. Breytingarnar sjást einnig í því að 44% af tjónatilkynningum berast okkur nú utan hefðbundins opnunartíma,“ segir Helgi.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér.