Breska dagblaðið Lloyd's List kemur í síðasta sinn út á prenti þann 20. desember næstkomandi en verður áfram gefið út á netinu. Blaðið er eitt elsta blað í heimi, 279 ára gamalt, og flytur fréttir og mikilvægar upplýsingar um skipaflutningaiðnaðinn.

Í frétt BBC um málið segir að könnun sem unnin var á vegum blaðsins hafi leitt í ljós að einungis 25 lesendur lásu aðeins prentuðu útgáfuna. Aðrir lesa blaðið á netinu.

Lloyd's List var stofnað af kaffihúsaeigandanum Edward Lloyd til að þjónusta gesti kaffihússins, sem einkum voru starfsmenn og hluthafar skipafélaga og tryggingafélaga.