Raungengi íslensku krónunnar féll um rúm 44% frá því í lok júní 2007 þar til í lok nóvember 2008, miðað við körfu 58 mynta heims samkvæmt útreikningum Alþjóðagreiðslubankans í Basel (BIS).

Þetta er fjórða mesta hrun gjaldmiðils á 18 mánaða tímabili skv. gagnagrunni BIS sem nær aftur til 1994.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar Landsbankans.

Hagfræðideildin segir Ísland hins vegar eiga heimsmetið yfir hrun raungengis frá ársbyrjun 2008. Á því tímabili féll raungengi krónunnar um 38% en næst í röðinni kemur suður-kóreska vonnið sem rýrnaði að kaupmætti um 24% á sama tíma, breska pundið og nýsjálenski dollarinn sem féllu um 18%.

Í hópi með rúpía, rúblu og pesa

Fram kemur í Hagsjá að mesta fall raungengis á átján mánuðum sem skráð er af BIS síðustu 15 árin var þegar kaupmáttur indónesískrar rúpíu féll um 68% frá ársbyrjun 1997 fram á mitt ár 1998. Þá féll raungengi argentínska pesans um 62% frá ársbyrjun 2001 og kaupmáttur rússnesku rúblunnar féll um 51% frá því september 1997 og næstu 18 mánuði.

„Sorgarsaga krónunnar frá því að fjármálakreppan hófst á miðju ári 2007 er svo næst á þessum lista,“ segir í Hagsjá.

„Mesta styrking raungengis íslensku krónunnar á 18 mánaða tímabili samkvæmt mælingu BIS var 23% frá maílokum 2004 til októberloka 2005. Svo miklar sveiflur eru fátíðar en þó má finna nokkuð mörg dæmi um að raungengi krónunnar styrkist eða veikist um meira en 10% á átján mánuðum en þau dæmi eru mun algengari eftir 2004 en fyrir þann tíma.“

Sjá nánar í Hagsjá.