Jarðvarmafyrirtækin Reykjavík Energy Invest (REI) og Geysir Green Energy (GGE) hafa verið sameinuð undir merkjum þess fyrrnefnda. Heildareignir sameinaðs félags eru metnar á um 60 milljarða króna. Stærstu hluthafar eru Orkuveita Reykjavíkur með 35,5% hlut, FL Group með 27% og Atorka Group með 20,1%. Stefnt er að því að félagið verði skráð á almennum markaði. Eigendafundur og stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) staðfestu samkomulag um sameininguna, fyrir sitt leyti, á sameiginlegum fundi sínum síðdegis í gær. Fulltrúi Vinstri grænna og fulltrúi Borgarbyggðar sátu hjá. Á fundinum var jafnframt samþykkt að OR myndi auka hlutafé sitt í sameinuðu félagi um 2,6 milljarða.

Sameinað félag á 100% hlut í Jarðborunum, 70% hlut í Enex, 66% hlut í Enex í Kína, 48% hlut í Hitaveitu Suðurnesja og 20% hlut í Western GeoPower í Kanada. Síðastnefnda félagið vinnur að þróun tveggja jarðvarmavirkjana í Bandaríkjunum.
Reykjavík Energy Invest var stofnað í mars á þessu ári og var fyrir sameiningu í 93% eigu OR. Geysir Green Energy var stofnað í janúar á þessu ári og voru stærstu eigendur fyrir sameiningu FL Group og Atorka.