„Ég er mjög ánægður með að flokkarnir tveir hafi náð saman,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Hann gerir nú grein fyrir stefnuyfirlýsingu næstu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í húsakynnum gamla Héraðsskólans að Laugarvatni.

Sigmundur fór í grófum dráttum yfir stjórnarsáttmálann en Bjarni ræddi um samstarf flokkanna í kjölfar síðustu þingkosninga og þann rúma þingmeirihluta sem stjórnarflokkarnir báðir eru með á Alþingi.

„Við lögðum upp með það fyrir kosningar að gera þyrfti breytingar, breyta um áherslur og forgangsröðun. Við erum strax komin á rétta braut,“ sagði Bjarni og lagði áherslu á verkefni nýrrar ríkisstjórnar. „Þetta er eitt risastórt samfélagslegt samvinnuverkefni,“ sagði hann.