Hópur tölvuþrjóta hefur stolið að minnsta kosti um 300 milljónum dala, andvirði um 40 milljarða króna, frá nokkrum alþjóðlegum bönkum, en samkvæmt frétt New York Times er um að ræða eitt stærsta bankarán sögunnar.

Rússneska tölvuöryggisfyrirtækið Kaspersky Lab, mun á morgun birta skýrslu um þjófnaðinn, sem bitnaði á bönkum í Japan, Sviss, Hollandi og Bandaríkjunum, en þyngstu höggin virðast hafa dunið á rússneskum bönkum.

Tölvuþrjótarnir sendu tölvupósta á starfsmenn viðkomandi banka og þegar viðkomandi starfsmaður smellti á hlekk í tölvupóstinum hlóð tölva hans niður forriti sem þrjótarnir notuðu annars vegar til að fylgjast með öllu sem í bankanum fór fram og hins vegar til að flytja fé úr bankanum.

Talsmaður Kaspersky segir að í raun sé ómögulegt að vita umfang ránsins, en fyrirtækið hafi gögn sem sýni svart á hvítu fram á að 300 milljónum dala hafi verið stolið. Hins vegar gæti fjárhæðin verið allt að þrisvar sinnum hærri. Ástæðan fyrir óvissunni er að sumar millifærslurnar voru smáar og telur talsmaður fyrirtækisins að það hafi verið gert til að vekja síður athygli á því sem fram fór.

Kaspersky segist ekki geta upplýst um hvaða bankar lentu í klónum á þrjótunum vegna trúnaðarsambands við bankana.