Danska olíudreifingarfélagið OW Bunker, sem er þriðja stærsta fyrirtæki í Danmörku, hefur lýst yfir gjaldþroti í kjölfar meintra fjársvika. Fjallað er um málið á vef BBC.

Fjárhagsvandræði fyrirtækisins litu dagsins ljós fyrr í vikunni þegar grunsemdir vöknuðu um fjársvik nokkurra lykilstarfsmanna dótturfélags, sem staðsett er í Singapúr.

OW Bunker er heimsins stærsti dreifingaraðili olíu fyrir skip og útvegar um 7% allrar skipaolíu í heiminum. Eftir að fréttir bárust af gjaldþroti fyrirtækisins í gær hefur mikið legið á fyrir skipafélög að útvega sér nýja drefiingaraðila.

Félagið skuldar 13 bönkum samtals um 750 milljónir Bandaríkjadala eða rúma 93 milljarða íslenskra króna.