Verði þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um fjármálaáætlun fyrir árin 2018 til 2022 samþykkt mun skattur á ferðaþjónustuna hækka umtalsvert eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um .

Er gert ráð fyrir því í fjármálaáætluninni að ferðaþjónustan færist úr hinu sértækari lægra þrepi virðisaukaskattsins sem er 11% í það efra, sem er 24% þann 1. júlí á næsta ári. Síðan er gert ráð fyrir því að fyrsta janúar hálfu ári síðar verði almenna þrepið síðan lækkað í 22,5%.

Eins og töluvert hefur komið fram í fréttum undanfarið hafa þessar breytingar verið harðlega gagnrýndar af forsvarsmönnum ferðaþjónustunnar.

Þegar þetta er skrifað hafa til að mynda 55 erindi og umsagnir borist vegna fjármálaáætlunarinnar til Alþingis, og snýr meirihluti þeirra að ferðaþjónustunni.

Þar á meðal er líklega eitt stysta erindi sem Alþingi hefur borist, en það er svohljóðandi:

Vér mótmælum

Á alveg að koma litlum ferðaþjónustuaðilum á hausin með þessari hækkun maður fer að pæla í að fara úr landi

Undir þessa athugasemd til Alþingis skrifar Ásdís Ámundadóttir.