Aðdáendahátíð tölvuleiksins Eve Online verður haldin um næstu helgi og er gert ráð fyrir að yfir eitt þúsund aðdáendur leiksins komi til landsins. Hátíðin hefst á fimmtudaginn og stendur fram á laugardagskvöld en þá verður haldin mikill lokadansleikur í Laugardalshöll sem standa mun fram á morgun. Er ljóst að þessi aðdáendahátíð slagar upp í Airways-hátíðina varðandi fjölda erlendra gesta.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Oddi Ö. Halldórssyni er þetta í sjötta sinn sem hátíðin er haldin og stefnir í að hún verði jafn fjölmenn og árið 2007 en þá var met slegið. Í fyrra mættu heldur færri vegna efnahagskreppunnar. Að sögn Odds stendur CCP fyrir hátíðinni en þátttakendur sjá sjálfir um að koma sér til landsins. Félagið bjó til pakkatilboð í samvinnu við Icelandair.

Eve Online hóf göngu sína árið 2003 en þá voru um 30 þúsund þátttakendur í leiknum. Nú eru þátttakendur vel á 400.000 talsins og fjölgar stöðugt. Bara frá því síðasta hátíð var haldin hefur þeim fjölgað um 100.000.