Ráðgjafarfyrirtækið Capacent hefur uppfært verðmat sitt á smásölufyrirtækinu Högum í kjölfar uppgjörs félagsins fyrir annan ársfjórðung. Samkvæmt mati Capacent er verðmatsgengi Haga nú 47,5 krónur á hlut og markaðsvirðið 54,8 milljarðar krónur, en í síðasta verðmati Capacent var hver hlutur í Högum metinn á 48,6 krónur. Er þar ekki tekið tillit til væntanlegra kaupa Haga á olíufélaginu Olís og fasteignafélaginu DGV ehf. Verðmat Capacent er 39,5% yfir gengi félagsins við lokun markaða í gær.

Góð framlegð

„Uppgjör Haga var í takt við væntingar Capacent og því eru litlar breytingar á rekstrarspá og verðmati,“ segir í verðmatinu. Endurskoðun á rekstrarspá Haga og lækkun fjármagnskostnaðar þýðir að verðmatið lækkar um 2%. Þrátt fyrir að fordæmalaus verð­ hjöðnun og styrking krónunnar, gjörbreytt samkeppnisumhverfi og þensla á vinnumarkaði hafi reynst mikil áskorun fyrir Haga, bendir Capacent á að framlegð félagsins hafi verið góð.

„Framlegð var 24,7% á fyrri hluta rekstrarársins 2017/18 samanborið við 24,6% á sama tímabili í fyrra. Capacent hefur kosið að gera ráð fyrir lækkandi framlegð í forsendum verðmats og að framlegð Haga verði um 24,1% á spátíma. Ljóst er því að framlegð er nokkuð meiri en Capacent gerði ráð fyrir. Á móti kemur að launakostnaður Haga er nokkuð hærri sem endurspeglast að einhverju leyti í því að Hagar hafa verið að ganga í gegnum endurskipulagningarferli og verið að loka búðum. Launakostnaður á fyrri helmingi rekstrarársins 2017/18 er því óvenjulega hár,“ segir í verðmatinu, en Capacent gerir ráð fyrir nokkuð meiri launakostnaði yfir spátímann en áður.

Verðmat Capacent er viðkvæmt fyrir breytingum á þróun sölu, EBITDA hlutfalls og fjármagnskostnaðar. „Fjármagnskostnaður er ávallt matsatriði. Það má rökstyðja 0,5% hærri ávöxtunarkröfu vegna óvissu í rekstri og aukinnar samkeppni á smásölumarkaði en þá lækkar verðmatsgengið í 43,3. Á spátímabilinu er gert ráð fyrir að EBITDA hlutfall Haga verði 6,4% eða 13% lægra en að meðaltali síðustu ár. Ef fjárfestar telja að það lækki enn frekar og verði 10% lægra eða tæplega 5,8% lækkar verðmatsgengið í 41,6.“

Frá því að Costco opnaði verslun sína í Kauptúni þann 23. maí hefur hlutabréfaverð Haga lækkað um tæplega 38%. Markaðsvirði félagsins við lokun markaða í gær var rúmlega 38 milljarðar króna og hefur rýrnað um tæplega 25 milljarða frá opnun Costco. Að mati Capacent hafa Hagar verið „eitt af vanmetnustu félögunum á markaði“ miðað við rekstur og fjárhagsstyrk félagsins, og telur Capacent lækkun Haga á markaði vera „óverðskuldaða“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .