*

þriðjudagur, 22. september 2020
Innlent 8. maí 2019 19:23

Eitthvað fyrir alla hjá Bergmáli

Veitingastaðurinn Bergmál Bistro hefur verið opnaður á jarðhæð Hörpunnar.

Sveinn Ólafur Melsted
Örn Guðmundsson rekur veitingastaðinn ásamt fjölskyldu sinni.
Haraldur Guðjónsson

Nýr veitingastaður hefur verið opnaður á jarðhæð tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpunnar. Staðurinn ber nafnið Bergmál Bistro og er í rýminu sem veitingastaðurinn Smurstöðin hafði áður til afnota. Veitingamaðurinn Örn Guðmundsson rekur Bergmál Bistro ásamt fjölskyldu sinni, en áður hefur fjölskyldan hefur meðal annars rekið Grillhúsið og Sólon.

„Allt frá því að við opnuðum staðinn hefur fólk úr ýmsum áttum komið til okkar að borða. Það er gott aðgengi að svæðinu og nóg af bílastæðum. Við áttum auk þess tryggan og góðan viðskiptavinahóp á Sólon og Grillhúsinu sem hefur frétt af því að við fjölskyldan höfum verið að opna nýjan veitingastað í Hörpunni og hefur þessi hópur einnig verið að koma til okkar. Fastakúnnarnir vita að við höfum verið í þessum bransa lengi og að maturinn okkar og þjónusta er upp á tíu. Þeir vita því hvað við stöndum fyrir," segir Örn.

Laus undan kraðaki miðbæjarins

Fjölskyldan hafði verið að svipast um eftir hentugu plássi fyrir veitingastað í miðbænum í nokkurn tíma áður en þeim stóð til boða rýmið í Hörpu. Örn segir að þau hafi séð ýmis tækifæri í því að reka veitingastað í Hörpunni.

„Það eru um tvær og hálf milljón gesta sem koma inn í húsið á ári hverju. Við erum eini veitingastaðurinn sem er á jarðhæð og við þurfum ekki að sækja viðskiptavini sérstaklega niður í bæ, heldur koma þeir í húsið í ýmsum erindagjörðum. Það eru um 6.000 manns sem koma inn í Hörpuna á degi hverjum og því nóg af mögulegum viðskiptavinum til staðar. Við sáum það að með því að vera með góðan stað á jarðhæð hússins, þá yrði nóg að gera. Við teljum þetta betri kost en að vera í kraðakinu í miðbænum, þar sem allir eru að berjast um sama fólkið - en á meðan er alltaf stöðugur straumur fólks hingað í hús. Það eru ýmsir fjölskylduviðburðir í boði í Hörpunni og á þeim kvöldum þar sem eitthvað er í gangi í húsinu er yfirleitt fullbókað hjá okkur."

Örn segist hafa fundið fyrir eftirspurn frá fólki eftir veitingastað á þessu svæði sem byði upp á fjölbreytt úrval matar fyrir alla fjölskylduna. Einungis hafi verið boðið upp á smurbrauð á staðnum sem var á svæðinu áður, sem hafi kannski verið full einhæft.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Lágt álverð sagt ástæða minnkandi hagnaðar eins af álverum landsins
 • Deilur fjarskiptafélaganna fara inn á nýjar víglínur í ljósleiðaravæðingu landsins
 • Stærstu sveitarfélög landsins sáu versnandi afkomu á síðasta ári, áður en nýir kjarasamningar tóku við og meira hægðist á efnahagslífinu
 • Farið er ítarlega í skýrslu um stöðu ferðaþjónustunnar og rætt við ferðaþjónustuaðila á landsbyggðinni um versnandi stöðu þar
 • Væntingar meirihluta fjármálastjóra um niðursveiflu í efnahagslífinu
 • Isavia stendur í deilum á mörgum vígsstöðvum þessa dagana, ekki bara við leigusala hins fallna félags Wow.
 • Viðar Þorkellsson forstjóri Valitor er í ítarlegu viðtali
 • Harðnandi baráttu fyrrum eigenda í Skeljungi til að komast aftur í stjórn
 • Fjallað er um hvatningarfund kvenna í upplýsingatækni
 • Rætt er við nýjan sölu- og markaðsstjóra hjá Tulipop sem á ættir að rekja hinum megin á álfunni
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um unga dómsdagsspámenn
 • Óðinn skrifar um rafbíla, Þýskaland og sæstreng