„Auðvitað kemur eitthvað í staðinn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, um breytingar sem á sérstöku veiðigjaldi. Hann segir að staðið verði við kosningaloforðið um breytingu á því. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að skoðað verði í vkunni hvort lagt verði fram frumvarp um breytingar á því á sumarþingi.

Hann bendir á það í samtali við blaðið að báðir stjórnarflokkarnir hafi lýst því yfir að þeir vildu hafa hóflegt auðlindagjald af sjávarauðlindinni. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem undirrituð var í síðustu viku segir að almennt gjald skuli endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.

Sigurður segir í samtali við Morgunblaðið:

„Við höfðum strax áhyggjur af því að sérstaka veiðigjaldið myndi koma mjög ójafnt niður á fyrirtækjunum, valda enn frekari samþjöppun og setja fyrirtæki á hausinn. Þetta er nú þegar farið að gerast og við þessu þarf að bregðast.“