Reglugerðarfarganið sem berst hingað til lands vegna EES hefur lengi verið eitur í beinum framsóknarmanna. Þetta er haft eftir Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra í Fréttablaðinu í dag. Hún segist hafa velt því upp hvort ekki sé hægt að nota mildara orðalag við þýðingu Evróputilskipana.

Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, tekur undir með Sigrúnu í samtali við Fréttablaðið. Hann segir regluverk EES íþyngjandi. Auk þess telur hann að skoða eigi hvort aðild Íslendinga að Schengen hafi verið til góðs eða ekki. Spurður segist hann alveg geta hugsað sér að beita sér fyrir endurmati á aðild að EES og Schengen.