Hópur fjárfesta undir stjórn Olgeirs Kristjónssonar og Gunnars Ingimundarsonar hefur gert samning við VBS Fjárfestingabanka um að bankinn safni saman umboðum frá þeim hluthöfum innan EJS sem ekki voru aðilar að samningi Dseta ehf. og Skýrr fyrir skömmu.

Þegar umboðið er fengið er ætlunin að semja fyrir hönd alls hópsins, sem mun telja um 550 hluthafa, um sölu á bréfunum. Að sögn Gunnars var bréf um þetta sent út til hluthafanna á miðvikudaginn og sagði hann að viðbrögðin hefðu verið góð. Er gert ráð fyrir að niðurstaða um umboð liggi fyrir í næstu viku og gerðu þeir ráð fyrir að taka sér átta vikur til að selja bréfin. Olgeir er einn af stofnendum EJS og Gunnar er fyrrverandi framkvæmdastjóri Hugar. Að sögn Gunnars nær þessi ósk til eigenda 25% af bréfum félagsins en EJS átti sjálft nokkuð af bréfum vegna kaupréttarsamninga.

Gunnlaugur M Sigmundsson, forstjóri Kögunar, sagðist skilja stöðu minnihlutans en á meðan ekki væri komin niðurstaða hjá samkeppnisyfirvöldum vegna kaupa Skýrr á EJS þá treysti félagið sér ekki til þess að ræða við þá sem ekki voru aðilar að fyrri kaupsamningi.

Skýrr hf. lét gera áreiðanleikakönnun vegna kaupa sinna á 58,7% eignarhlut í EJS hf. í byrjun mars. Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins nam EBTIDA EJS í fyrra ríflega 7% af veltu fyrirtækisins, eða á bilinu 250-300 milljónir króna og heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja heildarkaupverðið geti nálgast þrjá milljarða, að skuldum meðtöldum. Ætlunin er að EJS verði rekið sem dótturfélag Skýrr. Velta EJS-samstæðunnar á síðasta ári nam um 3,6 milljörðum króna og reksturinn gekk vel. Þar starfa um 150 starfsmenn.