Fjárfestingafélag Daniel Ek, meðstofnanda og forstjóra Spotify, hefur lokið sinni fyrstu fjárfestingu frá því að félagið var stofnað fyrir rúmu ári. Það var þýska tæknifyrirtækið Helsing sem varð fyrir valinu en það býr til kort í rauntíma af stríðssvæðum með aðstoð gervigreindar.

Ek setti 1,2 milljarða dala í fjárfestingafélagið Prima Materia í september 2020 með það að markmiði að bera kennsl á erfiðustu vandamál samfélagsins. Ek stefnir á að fjárfesta á næstu tíu árum í svokölluðum „moonshot“ verkefnum, þ.e. verkefnum sem hafa burði til að hafa mikil áhrif á skömmum tíma.

Ek horfir sérstaklega til evrópskra sprota þar sem þeir eru að hans mati undirfjármagnaðir í samanburði við bandarísk sprotafyrirtæki. „Það er ekkert leyndarmál að þegar kemur að því að búa til alþjóðleg tæknifyrirtæki sem skipta máli þá hefur Evrópa ekki staðið sig jafnvel og Bandaríkin og Kína,“ er haft eftir Ek í frétt Financial Times .

Sprotafyrirtækið Helsing, stofnað fyrr í ár, fékk 100 milljónir evra, eða um 15 milljarða króna, í fjármögnun frá Prima Materia, í viðskiptum sem gaf fyrirtækinu 400 milljóna evra verðmat. Torstein Reil, forstjóri Helsing, kynntist Ek eftir að hafa selt breska tölvuleikjafyrirtækið NaturalMotion til Zynga fyrir tæplega hálfan milljarð dala.

Haft er eftir Reil að Evrópa hafi dregist aftur úr í gervigreindar hernaðargetu og að markmið Helsing sé að bjóða upp á fyrsta flokks hervarnar og þjóðaröryggis gervigreindarbúnað til frjálslyndra lýðræðisríkja sem deila sömu gildum hvað varðar löggjöf og ábyrgðarhlutverk hins opinbera.