Toyota býður rúmlega 100 blaðamönnum víðs vegar að úr Evrópu að reynsluaka Land Cruiser 150 jeppa um þessar mundir hér á Íslandi. Toyota fetar þar með í fótspor Land Rover sem var með enn stærri kynningu í byrjun árs þegar nýr Land Rover Discovery Sport var kynntur hér á landi.

Það er gaman að sjá að stóru bílaframleiðendurnir horfa nú til Íslands vegna slíkra kynninga en mikill þjóðhagslegur ávinningur er af þeim bæði hvað varðar peningaupphæðir og þá miklu kynningu sem landið fær í umfjöllunum erlendra bílablaðamanna. Bílablaðamaður Viðskiptablaðsins slóst í för með fyrsta hópnum sem prófaði Land Cruiser við ýmsar aðstæður í byrjun síðustu viku.

Meira tog og minni eyðsla

Toyota Land Cruiser hefur stundum verið kallaður Íslandsbíllinn og líklega ekki að ósekju. Þessi stóri og stæðilegi jeppi hefur verið afar vinsæll hér á landi undanfarin ár enda þykir hann henta vel við íslenskar aðstæður. Land Cruiser 150 hefur nú fengið nýja 2,8 lítra dísilvél sem skilar 177 hestöflum og togið er alls 450 Nm. Jeppinn er nú einnig kominn með nýja sex þrepa Super ECT sjálfskiptingu og er auk þess í boði með sex gíra beinskiptingu fyrir þá sem vilja.

Þessi nýja vél leysir af hólmi eldri 3 lítra vélina sem þótti ekki nógu umhverfismild hvað varðar Evr­ópustaðla. Nýja vélin hefur minnkað koltvísýringslosun og eyðslu þótt enn mengi jeppinn 194 g/km. Eyðslan er komin nið­ur í 7,4 lítra á hundraðið miðað við lægstu tölu frá framleiðanda þótt auðvitað eyði jeppinn alltaf nokkru meiru sérstaklega þegar hraustlega er tekið á honum eins og gert var í þessum reynsluakstri.

Nýja vélin er þrælspræk og dugmikil fyrir þennan stóra bíl. Togið hefur raunar aukist um 7% miðað við eldri vélina og sparneytni vélarinnar hefur aukist um 9%.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem kom út í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .