„Markmið okkar er að hjálpa fyrirtækjum að vaxa á sem hagkvæmastan hátt, með þeim tólum sem Google hefur upp á að bjóða," segir dr. Ulrich Keller yfirmaður, viðskiptaþróunar fyrir Norðurlöndin. Hann starfar í höfuðstöðvum Google í Evrópu sem eru í Dublin á Írlandi. „Deildin sem ég vinn í er hluti af viðskiptaráðgjafarsviði Google, en þar hjálpum við fyrirtækjum við stafræna umbreytingu, það er viðskiptaþróun og stefnumótun í hinu nýja tæknilega umhverfi og yfirfærslu yfir í það.

Í grunninn snýst þetta um að gera fyrirtækjum sem ekki eru virk á vettvangi Google eða eru ekki með mikla stafræna viðveru kleift að eiga sterka byrjun þegar þau hefja þá vegferð, sem við byrjum auðvitað með auglýsingum. Þær geta svo gefið okkur innsýn og skilning á áhorfendunum og þeim sem hafa áhuga á vörunni sem er í boði svo fyrirtæki geta tekið upplýstari og betri viðskiptaákvarðanir. Til dæmis ef fyrirtæki er með heimasíðu skoðum við hvort upplýsingarnar á henni, eða á smáforriti fyrirtækisins ef það er með app, séu að ná til viðskiptavinarins á þann hátt sem lagt var upp með. Einnig hvort óþarfa flækjustig eru í því að gera viðskipti á netinu, til dæmis ef viðskiptavinir þurfa að fylla inn pöntun, hvort það séu óþarflega mörg skref að ganga frá kaupunum, því þá hættir fólk við. Það eru svona hlutir sem snerta á reynslu viðskiptavina af því að nota þjónustu fyrirtækja sem við vinnum með."

Keller hefur á þeim tveimur árum sem hann hefur starfað fyrir Google tekið að sér að stýra viðskiptaþróun á Norðurlöndunum en á næsta ári tekur hann við þróun á smáforritum fyrir Miðog Norður-Evrópu. Hann var á ferðinni á Íslandi á dögunum þar sem hann heimsótti meðal annars auglýsingastofuna Sahara sem er nú í ferli til að verða hluti af auglýsingastofum sem Google bendir á sem formlega samstarfsaðila. Markmiðið með heimsókninni var að gefa fyrirtækinu og viðskiptavinum þess meiri innsýn í hugmyndafræði Google og hvernig hámarka megi árangur á auglýsingaherferðum í gegnum tól fyrirtækisins hér á landi og erlendis, og enn frekar hvernig nýta megi Youtube til að auka vörumerkjavitund fyrirtækja.

„Öll þjónustan sem deildin mín veitir er ókeypis fyrir samstarfsaðila okkar. Ef við tækjum dæmi um íslenskt fyrirtæki, ég þekki nú ekki mörg en segjum ef 66 gráður Norður, þar sem ég fékk þennan forláta bol sem ég er í, vildi fara inn á nýjan markað. Þá myndi teymið okkar gera fyrir þá viðskiptaáætlun, þróa skilaboðin og hvað hægt væri að gera svo fyrirtækið myndi ná sem mestum árangri á sem hagkvæmastan hátt. Aðalatriði er að ná viðvarandi og endurteknum viðskiptum. Markmiðið er ekki að ná fram skammtímagróða heldur að hjálpa fyrirtækjum að ná viðvarandi vexti, því þá græða allir. Þar koma auglýsingastofur eins og Sahara og fleiri inn í, því margir viðskiptavinir okkar eru minni fyrirtæki sem hafa ekki þekkinguna til að gera það sem þarf þeirra megin innanhúss," segir Keller sem samt sem áður tekur fram að Google mæli ekki með einni stofu frekar en annarri.

„Við erum hlutlaus, en við erum með miðlægan gagnagrunn þar sem viðskiptavinir okkar geta séð þær auglýsingastofur sem eru samstarfsaðilar okkar. Til viðbótar við höfuðstöðvarnar í Dublin erum við með skrifstofur á flestum Norðurlandanna sem við vinnum náið með. Í skrifstofum okkar í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi er mikil þekking og geta, ásamt skilningi á aðstæðum á hverjum stað. Frá Dublin aðstoðum við þær með tölfræði og innsæi, sem er betra að gera frá einum miðlægum stað og svo miðla þeim þaðan. Aðstoðin frá skrifstofunum í löndunum felst fyrst og fremst í tungumálaþekkingu, því þetta byrjar alltaf með auglýsingaherferðum sem ég get ekki ráðlagt um ef hún er á finnsku eða íslensku sem dæmi. En ef við erum með íslensku- eða finnskumælandi einstakling með Ekkert að óttast Yfirmaður viðskiptaþróunar Google á Norðurlöndum segir mikil tækifæri felast í því að fyrirtæki noti ýmis Google-tól til að skoða vörumerkjavitund og áhuga viðskiptavina á vörum sínum um allan heim. Dr. Ulrich Keller heimsótti starfsmenn og viðskiptavini auglýsingastofunnar Sahara á dögunum og fór með þeim yfir hvaða tækifæri felast í notkun tóla Google en hann starfar í Evrópuhöfuðstöðvum fyrirtækisins í Dublin. VB MYND/hag viðtal 11 okkur í Dublin getur hann unnið með t.d. finnska hópnum. Þannig geta sérfræðingar okkar séð hvað virkar best og lagt þar með fram áreiðanlegar og þaulreyndar tillögur um næstu skref."

Prófuðu viðtökurnar fyrirfram

Ulrich Keller segir að auðvitað snúist kjarnastarfsemi Google um miðlun auglýsinga, en það sé margt annað sem félagið gerir. Þannig geri fyrirtækið til að mynda ýmiss konar markaðsrannsóknir fyrir samstarfsfyrirtæki, sem byggðar eru á viðamiklum gögnum, þótt hann taki það skýrt fram að allt sé gert í fullu samræmi við GDPR reglur Evrópusambandsins.

„Við erum bundin trúnaði gagnvart okkar viðskiptavinum, en ég get sagt frá því að við erum til dæmis með norrænt fyrirtæki sem framleiðir hráefni sem þeir hafa verið að selja til annarra fyrirtækja til pökkunar og markaðssetningar. Þá langaði að kanna hvort þeir ættu að fara yfir í að selja beint til viðskiptavina svo það er eitt af því sem við getum gert, á grunni auglýsingagrunns okkar, að skoða hve vænlegt það er," segir Keller.

„Félagið átti stóran hluta af markaðnum fyrir, óbeint, en það langaði að brúa þetta millistig, og langaði að sjá hvort það væri betra fyrir félagið að fara í beina markaðssetningu. Við gerðum fyrir þá markaðstilraun, sem fólst í að setja upp safn af vefsíðum sem við gerðum svokallaða AB prófun á. Þá setjum við fram mismunandi útgáfur af auglýsingum fyrir sömu vöruna, sem við prófum svo viðbrögðin við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .