Ríkisendurskoðandi fann ekkert athugavert við starfsemi Lindarhvols ehf. Þetta kemur fram í skýrslu sem skilað var til þingsins í liðinni viku og gerð opinber í dag.

Starfsemi Lindarhvols hefur ekki verið óumdeild í gegnum tíðina. Meðal þess sem var gagnrýnt var samningur félagsins við lögmannsstofuna Íslög án útboðs. Alls fékk stofan greiddar 80 milljónir króna, án virðisaukaskatts, á starfstíma félagsins.

„Stjórnin taldi eftirsóknarvert að njóta starfskrafta lögmannsins enda hefði hann búið yfir yfirburða þekkingu á sviðinu eftir að hafa haft umsjón með gerð stöðugleikasamninga fyrir hönd Seðlabanka Íslands við öll slitabúin og þannig haft umsjón með móttöku og daglegum rekstri þessara eigna. Var það mat stjórnar að útilokað hefði verið að ná fram markmiðum í samningi við fjármála- og efnahagsráðherra um að hámarka endurheimtur jafn hratt og raun varð á og lágmarka kostnað ef farið hefði verið í útboð, enda hefði slíkt reynst tímafrekt og óvíst með öllu, að mati stjórnar félagsins, að sama þekking á stöðugleikaframlagseignum hefði náðst fram innan þeirra tímamarka sem stjórn félagsins hafði til ráðstöfunar,“ segir í skýrslunni. Telur ríkisendurskoðandi ekki tilefni til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag.

Ríkisendurskoðandi kannaði einnig hvort söluandvirðið sem fékk fyrir hlutafjár- og nauðasamningskröfur Klakka ehf. hafi verið of lágt. Athugunin leiddi í ljós að eignin var seld hæstbjóðanda í samræmi við þau lög og þær reglur sem giltu um efnið.

„Að fengnum skýringum stjórnar Lindarhvols ehf. og athugun á gögnum félagsins eru að þessu sögðu, hvorki gerðar athugasemdir við söluaðferðina né söluverð eignarinnar. Er þá tekið tillit til þess skamma starfstíma sem félaginu var markaður, en telja verður að ef félagið hefði haft rýmri tíma til að selja eignina kunni söluvirði hennar mögulega hafa orðið hærra,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér.