Verð á heimsmarkaði á hverja tunnu af Brent hráolíu hefur hríðfallið undanfarna mánuði og stendur nú í rétt rúmum 50 bandaríkjadölum á hverja tunnu.

Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykons sem er einn sérleyfishafa á olíuleit á Drekasvæðinu, segir í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að verðlækkunin sé ákjósanleg á meðan leitinni stendur. „Þannig að við erum bjartsýnir á að okkur takist að framkvæma þessar mælingar með töluvert lægri tilkostnaði en við gerðum ráð fyrir,“ segir Gunnlaugur.

Enn sé stefnt að endurvarpsmælingum á svæðinu næsta sumar.

Framtíðarverðið skiptir máli

Gunnlaugur bendir á að finnist olía á svæðinu í vinnanlegu magni séu enn allmörg ár í að hún komist í sölu. Það sé verðið sem þá fáist fyrir hana sem skipti máli. Ómögulegt sé hinsvegar að spá fyrir um hvert það muni verða þegar þar að kemur.