Að undanförnu hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum um það hvort tekið sé að hægja á íslenskum fasteignamarkaði, bæði hvað umfang viðskipta og verð varðar, eftir mikla veltu undanfarið ár. Haft hefur verið eftir fasteignasölum að þeir skynji að dregið hafi úr spennunni á markaðnum. Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, segir það skilgreiningaratriði hvort að tala megi um kulnun á fasteignamarkaðnum. Að hans mati er hin mikla eftirspurn enn til staðar en minnkandi sala stafi einfaldlega af skorti á íbúðum.

Þó að það dragi úr hækkunum er þó fátt eða ekkert sem bendir til þess að fasteignaverð muni koma til með að lækka í framtíðinni enda fasteignaverð mjög tregbreytanlegt niður á við.

Næg eftirspurn en lítið af eignum í boði

Ari telur að sama eftirspurnin eftir fasteignum sé enn fyrir hendi en hún sé þrátt fyrir það ekki eins sýnileg því það sé einfaldlega svo lítið af eignum í boði. „Ég held að það sé ástæðan og eflaust einhverjir sem vilja kalla það kólnun. Fólk ákveður að hinkra bara aðeins og bíða vegna þess að það er ekkert í boði sem það langar og fáir valkostir.“

Það er skoðun Ara að hægt væri að selja miklu fleiri íbúðir en þær séu einfaldlega ekki til. „Það hefur verið byggt rosalega lítið að undanförnu og þá sérstaklega í Reykjavík. Því til viðbótar hefur verið mikil velta á fasteignamarkaðnum síðustu tvö, þrjú árin. Flestir þeir sem voru að hugsa sér til hreyfings eru því kannski komnir á þokkalegan stað og verða í þriggja herbergja íbúðinni í einhver ár áður en þeir geta hugsað sér að stækka við sig. Ég því ímyndað mér að það sé komin einhverskonar ró á markaðinn hvað þetta varða, fyrir utan kannski unga fólkið sem er alltaf að bíða eftir því að komast inn.“

Sjaldan eiginleg lækkun á fasteignaverði

Ef skoðuð er þróun fasteignaverðs í landinu inná heimasíðu þjóðskrár má sjá að meðalverð fasteigna hefur hækkað mikið undanfarna áratugi. Það sem gæti hinsvegar vakið athygli einhverra er hversu sjaldan slíkar verðhækkanir ganga til baka. Fasteignaverð hefur þannig í raun aðeins einu sinni lækkað aftur en það var á örlagaárunum sem fylgdi íslenska efnahagshruninu.

„Það er þannig að verð á fasteignum er mjög tregbreytanlegt niður á við.  Þegar hrunið varð og allt hríðlækkaði þá lækkaði fasteignaverðið í krónum aðeins um 15%  en það var svo verðbólgan sem klippti af raungildinu. Raunlækkunin var því um 35%, ef ég man rétt, frá hæsta punkti til þess lægsta, en þar af var aðeins 15% lækkun á nafnverði.

Ef þú kaupir íbúð á 30 milljónir króna þá viltu eðli málsins samkvæmt ekki selja hana á 25 milljónir. Fólk bíður frekar og reynir að leysa vandamálið einhvernvegin öðruvísi, það er þessi sýnilegi þröskuldur, fólk vill ekki selja ódýrar en það keypti á. Flestir reikna auðvitað með því að virðið hækki á endanum og fólk bíður því,“ segir Ari.