Enn bólar ekkert á fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda.

Þegar stjórn AGS frestaði því með skömmum fyrirvara að taka endurskoðunina fyrir á fundi sínum í byrjun ágúst sögðu íslenskir ráðamenn að þeir vonuðust til þess að hægt yrði að taka hana fyrir í lok ágúst eða byrjun september.

Ef marka má dagskrá stjórnarinnar sem birt er á vef sjóðsins er Ísland ekki á dagskrá fyrir 9. september. Þann dag er fjallað um málefni Austurríkis.

Annar hluti láns AGS til Íslands er sem kunnugt er háður fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar. Upphaflega stóð til að sú endurskoðun færi fram í febrúar en það hefur, sem fyrr segir, nú dregist um hálft ár.