Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um að setja á laggirnar nefnd sem skoða á mögulega sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, að sögn Bolla Þórs Bollasonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, nefndi það í síðustu viku að það kæmi til greina að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Slík vinna hefur hins vegar ekki verið sett í neinn farveg eftir því sem næst verður komist.

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segist hafa skilið það sem svo að það ætti að skipa nefnd til að fara í málið og að hún ætti að vinna hratt.

,,Ég hef skilið ummæli forsætisráðherra á þann veg," segir hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni forsætisráðherra, Grétu Ingþórsdóttur, er ekki búið að ganga frá þessu máli og Bolli Þór Bollason segir, eins og vitnað var til hér að ofan, að ekki sé búið að taka formlega ákvörðun um skipan slíkrar nefndar.