Íslamska ríkið ítrekaði í gær að samtökin hyggist slá sértaka mynt sem ætluð er til notkunar á yfirráðasvæði samtakanna. Shura-ráðið svokallaða, sem fer með hluta af framkvæmdavaldi samtakanna, skipaði sérstökum seðlabanka Íslamska ríkisins að slá myntina á síðasta ári. Síðan þá hefur lítið gerst í málinu að sögn Bloomberg , sem ræddi við íbúa svæðisins.

Í áróðursmyndbandi sem birtist í gær sagði fulltrúi samtakanna að tilgangur þess að gefa út eigin gjaldmiðil væri að brjótast undan þrældómi hins kapítalíska fjármálakerfis. Grundvöllur kerfisins væri „pappírssnefill sem kallast bandaríkjadollari.“

Í myndbandinu sagði að tuttugu og eins karata, eins dínars mynt myndi vega 4,25 grömm, en að fimm dínara mynt myndi vega 8,5 grömm. Ekki var útskýrt í myndbandinu hvernig samtökin hyggjast slá hina nýju mynt, en vitað er að þau hafa stolið miklu magni eðalmálma úr bönkum, skartgripaverslunum og frá íbúum svæðisins, einkum kristnum minnihlutahópum. Gullsmiðir í borginni Mósúl búa yfir vélum frá Ítalíu sem geta slegið um 5.000 peninga á dag.

Fyrst var tilkynnt um hina nýju mynt í nóvember síðastliðnum. Bloomberg hefur eftir ónafngreindum íbúum á svæðinu að þeir hafi hvorki séð neina nýja mynt, fengið upplýsingar um það hvernig myntskiptin myndu virka né fengið að vita hvert gengi nýja gjaldmiðilsins myndi vera.

Íraskur hagfræðingur sem rætt var við segir að fyrst og fremst sé um áróðurstæki að ræða.