OPEC-ríkin hafa fundað um olíumarkaðinn og framleiðslu í Vín síðustu daga. Þar hefur margt borið á góma, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær telja þó nokkrir ráðherrar að hráolíumarkaðurinn sé að rétta sig af. Nú hefur viðræðum lokið en engri niðurstöðu um framleiðsluhámark hefur enn verið náð.

Helst til voru það þá Sádí-Arabía og Íran sem deildu um aðferðafræði og markmið bandalagsins. Íranir hafa engan áhuga á því að setja hámark á framleiðslu sína, jafnvel þótt það gæti haft þau áhrif að hráolíuverð fari hækkandi hraðar.

Þrátt fyrir að engum afgerandi niðurstöðum um framleiðsluhámark hafi verið náð á fundinum voru samskipti olíuframleiðsluríkjanna fremur jákvæð - Sádí-Arabía hét því að bjóða ekki fram of mikla hráolíu þannig að markaðinn flæði yfir og Íran hét því sömuleiðis að gera slíkt hið sama. Bloomberg fjallaði um málið.